Eitt af þeim föstu verkefnum sem Brautin – bindindisfélag ökumanna hefur farið í er könnun á búnaði þeirra reiðhjóla sem eru til sölu í verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur komið í ljós að oft vantar upp á að hjól sem eru til sölu standist reglugerð nr 057/1994 um gerð og búnað reiðhjóla. Þá hafa á síðustu árum komið fleiri gerðir reiðhjóla á markað sem ekki falla vel að regluerðinni.
Til þess að reiðhjól sé löglegt þarf eftirfarandi búnaður að vera á því:
- Hemlar að framan og aftan
- Rautt þríhliða glitmerki að aftan
- Hvítt þríhliða glitmerki að framan
- Glitmerki á fótstigum (gul eða hvít)
- Glitmerki á teinum hjólsins (gul eða hvít)
- Ef hjólið er notað í myrkri skal vera til staðar hvítt eða gult ljós að framan og rautt að aftan.
- Lás
- Keðjuhlíf
- Bjalla
Þá skulu allir hjólreiðamenn yngri en 15 ára nota reiðhjólahjálm. Þó hvetur Brautin alla reiðhjólamenn til þess að nota hjálm þar sem hann eykur stórlega öryggi hjólreiðamanna ef slys verður.