Það er hefð fyrir því hjá Brautinni – Bindisfélagi ökumanna að fyrrum formenn og forsetar setjist niður og finni fólk til að leiða félagið. Undirritaður hafði verið í stjórn og varastjórn félagsins um nokkurt skeið og kom því ekki þannig á óvart þegar Halldór Árnason hafði samband og fór þess á leit að ég tæki við sem næsti formaður, ekki nema á þann hátt að bakgrunnur minn hjá félaginu er ekki sá sami og flestra hinna sem ruddu brautina.
En stoltur tók ég við formennsku og notfærði mér um leið þá stjórnunarhætti er Halldór hafði sýnt svo vel árin á undan. Öguð vinnubrögð, skipulagið uppá tíu, þekking á málefnum og mönnum voru hans aðalsmerki. Því var auðvelt fyrir mig að tileinka mér þessi gildi sem þekkt voru, en tók þó ekki upp þann góða sið að nota fundarhamarinn fína við tilvalin tækifæri, en fyrir Halldór var það einskonar list, er hann sló akkúrat réttu höggi, svo ekki léki vafi á að fundur væri settur eða honum slitið.
Halldór Árnason sat í stjórn félagsins frá árinu 1985 til 1988 og aftur frá árinu 1998 til 2005. Varaforseti 1985 til 1988 og formaður 1998 til 2005. Sem formaður beitti Halldór sér fyrir ýmsu, t.d. fyrir norrænu samstarfi bindindisfélaga auk þess þekkti hann stjórnkerfið hér heima vel og nýtti það til þess að hafa áhrif á ýmis umferðaröryggismál með beinum hætti. Halldór var traustur og góður vinur og stutt var alla tíð í brosið, þótt alvörugefinn væri.
Við minnumst hans með miklu þakklæti fyrir fornfúst starf, minning Halldórs Árnasonar lifir um ókomin ár.
Fyrir hönd stjórnar Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna
Páll H Halldórsson
Páll H. Halldórsson
26. september 2023 07:30