Í dag kveðjum við góðan félaga okkar Jóhann E. Björnsson, sem lést á Droplaugarstöðum þann 28. júlí síðastliðinn.
Jóhann var um árabil einn af máttarstólpum BFÖ, sat í stjórn félagsins og lagði gjörva hönd á plóg við útgáfu málgagna þess, Brautarinnar og BFÖ-blaðsins. Í þakklætisskyni fyrir allt hans góða starf var Jóhann gerður að heiðursfélaga BFÖ á 50 ára afmæli félagsins árið 2003. Árið 1960 átti BFÖ aðild að stofnun tryggingafélagsins Ábyrgðar og þangað réðst Jóhann til starfa árið 1961 og veitti félaginu forstöðu allt til ársins 1997. Í starfi sínu hjá Ábyrgð studdi Jóhann ötullega við bakið á starfsemi BFÖ og sá meðal annars til þess að BFÖ fengi ávallt starfsaðstöðu í húsakynnum Ábyrgðar. Umferðaröryggismál voru Jóhanni einkar hugleikin og má þess til gamans geta að Ábyrgð varð fyrsta tryggingafélagið hér á landi til að auka rétt þeirra sem notuðu öryggisbelti við akstur – vel að merkja áður en lög um notkun öryggisbelta tóku gildi hér á landi árið 1981.
Jóhann var einstaklega góður félagi í samstarfi, hann lagði málum gott lið, sá fljótt hver aðalatriðin voru og var góður skipuleggjandi.
Félagsmenn BFÖ kveðja nú Jóhann með virðingu og þökk fyrir allt hans óeigingjarna starf fyrir félagið um leið og fjölskyldu hans eru sendar dýpstu samúðarkveðjur.
Stjórn Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna
Guðmundur Karl Einarsson
9. ágúst 2021 07:17