Minningarsjóður Lovísu Hrundar afhenti í dag myndarlegan styrk til Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna að upphæð 2.000.000 kr. vegna endurnýjunar á Veltibílnum. Síðastliðin 25 ár hefur félagið notað Veltibílinn markvisst til þess að vekja athygli landsmanna á mikilvægi bílbeltanna. Á þessum tíma hafa 362.000 manns farið hring í bílnum. Barátta fyrir umferðaröryggi hefur verið hornsteinn félagsins síðan það var stofnað árið 1953. Það er samdóma álit þeirra sem koma að umferðarmálum að veltibíllinn hafi verið það tæki sem best hafi nýst til að skapa almenna bílbeltanotkun landsmanna.
“Við erum gríðarlega þakklát fyrir stuðning Minningarsjóðs Lovísu Hrundar við endurnýjun á Veltibílnum. Félagið byggir á sjálfboðaliðum og án stuðnings sem þessa væri einfaldlega ekki hægt að keyra svona öflugt forvarnaverkefni sem Veltibíllinn er,” segir Páll H. Halldórsson stjórnarmaður í Brautinni. Jóhannes Kr. Kristjánsson formaður stjórnar Minningarsjóðs Lovísu Hrundar afhenti styrkinn í dag og segir að verkefni Brautarinnar séu mikilvæg í baráttunni gegn ölvunarakstri og umferðaröryggi. „Stjórn Minningarsjóðs Lovísu Hrundar hefur mikla trú á forvarnarverkefnum Brautarinnar gegn ölvunarakstri og fannst mikilvægt að styðja sérstaklega endurnýjun á Veltibílnum sem þúsundir barna um allt land hafa farið í og prófað. Við óskum Brautinni velfarnaðar í forvarnarstarfi sínu í framtíðinni,” segir Jóhannes Kr. Kristjánsson.
Guðmundur Karl Einarsson
23. október 2020 23:27