En Askasleikir fylltist óþægilegri hugsun. Honum fannst að þessi maður gæti ekki keyrt bíl fyrst hann gæti varla gengið. Svo hann bað manninn að hjálpa sér því pokinn hans væri svo þungur. Maðurinn gat ekki annað en farið út úr bílnum og reyndi að hjálpa Askasleiki með pokann. Hann rétti Askasleiki ílátið sem Askasleikir hélt að væri askur og tók að bisa við pokann. Þá sá Askasleikir bíllykilinn í bílsætinu og notaði hann þá tækifærið og greip lykilinn og stakk honum í vasann.
Þegar maðurinn hafði hjálpað Askasleiki að lyfta pokanum, settist hann aftur inn í bílinn en gat með engu móti fundið lykilinn. Á endanum gafst hann upp og fór inn í leigubíl sem þar stóð hjá. Stuttu seinna birtist lögreglumaður og spurði hann Askasleiki hvort hann hyggðist keyra. „Nei það geri ég ekki því ég á ekki þennan bíl en taktu samt þessa lykla. Maðurinn sem ætlaði að keyra hann gekk svo einkennilega og svo gleymdi hann þessum aski sem hann var að drekka úr svo ég tók lyklana og faldi þá fyrir honum“.
„Þetta er ekki askur“ sagði lögreglumaðurinn. „Þetta er vínflaska og maðurinn líklega verið drukkinn. Þú hefur hugsanlega bjargað því að hann slasaði sig ekki eða aðra því drukkinn maður hefur ekki stjórn á bílnum og má auk þess ekki keyra í slíku ástandi. Þakka þér fyrir Askasleikir. Við skulum koma lyklunum til skila. Má bjóða þér far í lögreglubílnum?“ Það þáði Askasleikir og óku lögreglumennirnir honum að fyrstu húsunum þar sem þægu börnin kúrðu sofandi og biðu þess að kíkja í skóinn sinn morguninn eftir.
Guðmundur Karl Einarsson
17. desember 2018 07:00