Þvörusleikir hafði ekkert farartæki til að notast við þegar kom að honum að yfirgefa Grýluhelli svo hann fór af stað fótgangandi með stóran og þungan pokann sem var fullur af gjöfum í skó þægu barnanna. Hann var búinn að ganga nokkurn spöl þegar stór bíll stoppaði og ökumaðurinn kallaði út um gluggann hvort hann vildi far í bæinn. Þvörusleikir var ekki lengi að segja „Já takk“. Svo settist hann upp í bílinn og setti pokann í aftursætið.
Þegar bílstjórinn settist í sætið sitt togaði hann eitthvert band út úr veggnum á bílnum og setti það yfir sig. Þvörusleikir varð forvitinn eins og svo oft áður og spurði hvað hann væri að gera. „Þetta eru bílbelti. Og þú þarft að setja það á þig líka.“ „Já en ég er jólasveinn. Ég þarf ekkert svona“ sagði Þvörusleikir. En ökumaðurinn sagði að það skipti engu máli. Allir yrðu að nota bílbelti. Ef bíllinn færi útaf eða lenti í óhappi gæti Þvörusleikir meitt sig mikið og þá fengju þægu börnin engar gjafir í skóna sína. „Allt í lagi, ég skal setja þetta á mig líka en þú verður að hálpa mér“ sagði Þvörusleikir. Ökumaðurinn gerði það og svo héldu þeir af stað.
Stuttu seinna hljóp refur fyrir bílinn og ökumaðurinn þurfti að nauðhemla svo Þvörusleikir kastaðist fram í beltið. „Þetta var vont“ sagði Þvörusleikir. „En nú veit ég af hverju þú skipaðir mér að hafa bílbeltið spennt. Og nú mun ég alltaf spenna bílbeltið framvegis“ sagði Þvörusleikir að lokum.
Guðmundur Karl Einarsson
15. desember 2018 07:00