Stúfur var á leiðinni í bæinn á vélsleðanum sínum. Snjórinn var mikill og erfitt að sjá fram fyrir sig. Loks kom hann að vegi sem búið var að skafa mesta sjóinn af. Þetta fannst Stúfi æðislegt og ákvað að gefa allt í botn á vélsleðanum sínum. Það hefði hann betur látið ógert því hraðinn var meiri en hann réð við og að lokum missti hann stjórn á sleðanum og sleðinn kastaðist útaf. Heppnin var með Stúfi því hann sjálfur lenti í mjúkum skafli.
En nú voru góð ráð dýr. Hann myndi ekki komast í tæka tíð til að gefa þægu börnunum í skóinn. En hvar var pokinn hans. Hann leitaði og leitaði en fann hann hvergi. Að lokum kom bíll aðvífandi og bílstjórinn stöðvaði bílinn og hjálpaði Stúfi að leita að pokanum. Að lokum fundu þeir pokann á kafi í skafli en vélsleðinn hans fór ekki í gang. Nú voru góð ráð dýr.
Þegar bílstjórinn sá hve ráðalaus Stúfur var bauð hann honum far í bæinn og spurði hvað hefði gerst. „Ég vildi bara prófa hvað ég gæti farið hratt“ sagði Stúfur. „Veistu ekki að það eru reglur sem segja að við megum ekki fara nema ákveðið hratt. Við eigum að hlýða þeim og ekki bara það, þegar slæm færð er eins og í dag, verðum við að keyra enn hægar til að lenda ekki í slysi eins og þú lentir í. Næst þegar þú keyrir vélsleðann skaltu fara hægar“ sagði bílstjórinn. Í þann mund óku þeir fram hjá stóru skilti sem á stóð „Hraðinn drepur“. Nú skyldi Stúfur það sem stóð á skiltinu og lofaði að fylgja þessum reglum sem hann var að læra.
Guðmundur Karl Einarsson
14. desember 2018 07:00