Brautin setti upp í vikunni Ökuleikninámskeið fyrir bílstjóra Kynnisferða. Þetta er nýlunda hjá Brautinni að nýta Ökuleiknina til að auka enn frekar öryggi bílstjóra á stórum bílum.
Fyrst er haldinn fundur með bílstjórum þar sem bent er á ýmis mikilvæg atriði sem þurfa að vera í lagi hjá bílstjóra sem vill skara fram úr í akstri. Bent á mikilvægi þess að þekkja vel „karakter“ þess tækis (rútu) sem ekið er, hvernig rútan hegðar sér þegar verið er að aka við þröngar aðstæður sem þessar rútur þurfa mjög oft að gera enda má rekja mörg tjónanna til slíkra aðstæðna. Hópnum var síðan skipt í lið og þurfti hvert lið að vinna saman að því að leysa erfiðar akstursþrautir. Einn úr liðinu ók meðan hinir aðstoðuðu og svo var skipt. Þetta fyrirkomulag reyndist mjög vel og var haft eftir bílstjórum að þeir hafi jafnvel lært meira við að leiðbeina reyndum bílstjóra og sjá hvaða mistök hann var að gera.
Það er ánægjulegt fyrir Brautina að geta orðið að liði með þessum hætti og lagt þannig af mörkum lóð á skálar aukins umferðaröryggis.
Einar Guðmundsson
7. september 2018 12:06