Hjördís og Sighvatur langbestu ökumennirnir
Íslandsmeistarakeppnin í Ökuleikni á fólksbílum var haldin í dag, sunnudaginn 1. október. Keppnin var fyrst haldin árið 1978 og fagnar því 39 ára afmæli í ár. Keppendur voru 13 og mættu við höfuðstöðvar Eimskips við Sundahöfn.
Það var Sighvatur Jónsson sem sigraði karlariðilinn í níunda skipti en hann sigraði fyrst árið 2000. Sighvatur ók brautirnar fjórar á samtals 459 sekúndum að meðtöldum villum. Í kvennariðli sigraði Hjördís Heiða Ásmundsdóttir þriðja árið í röð en hún ók á alls 716 sekúndum. Líkt og á stóru bílunum gátu keppendur myndað með sér lið og var það liðið Klessa á sem sigraði en liðið samanstóð af bræðrunum Sighvati Jónssyni og Gylfa Jónssyni sem lenti í 3. sæti.
Það er Brautin – bindindisfélag ökumanna sem stendur fyrir keppninni í samstarfi við Eimskip, Ölgerðina, Sjóvá, SBA, Heklu og N1.
Ökuleikni 2017. Úrslit á fólksbílum
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá keppninni en fleiri myndir er að finna á Flickr síðu félagsins.
Guðmundur Karl Einarsson
1. október 2017 17:26