Frá árinu 2005 hefur Brautin-bindindisfélag ökumanna kannað árlega stöðu á skyldubúnaði reiðhjóla í reiðhjólaverslunum. Reglugerð um búnað reiðhjóla er orðin gömul eða frá 1994 en þar er tilgreint að eftirfarandi eigi að vera á reiðhjólum: Bjalla, glitmerki framan og aftan, teinaglit, glit á fótstigi, fram- og afturbremsur, keðjuhlíf og lás.
Nú er reglugerðin í endurskoðun og liklegt að sú nýja taki nokkurt mið af dönskum reglum en þaru kröfur um skyldubúnað örlítið minni en gert er ráð fyrir hér á landi í dag. Samkvæmt henni verða ekki gerðar kröfur um lás og keðjuhlíf en allt annað skuli vera á þeim reiðhjólum sem notuð eru í umferð óháð notkun. Þó má létta reiðhjól í keppni með því að taka af skyldubúnað tímabundið.
Krafan um skyldubúnað reiðhjóla er skýr en margir reiðhjólasalar telja sig ekki bera ábyrgð á því að selja lögleg hjól heldur sé það viðskiptavinarins að bæta við þeim skyldubúnaði sem þarf til að gera það löglegt. Í raun ætti ábyrgðin að vera hjá þeim sem selur hjólið þar sem hann er sérfræðingurinn í búnaði reiðhjóla en ekki hinn almenni viðskiptavinur. Því hefur Brautin lagt til að nýja reglugerðin kveði á um ábyrgð reiðhjólasala að þeir selji löglegt reiðhjól út úr sínum verslunum.
Ef skoðuð er þróun löglegs búnaðar síðustu ár, þá er það greinilega nauðsynlegt því svo virðist vera sem færri og færri af ofangreindum skyldubúnaði séu á hjólunum og í staðinn eru þeir seldir sér. Línuritið hér fyrir neðan sýnir að best stóðu reiðhjólasalar sig árið 2011 þegar 71% reiðhjólanna voru lögleg í verslunum. Í ár eru það einungis 14% og munar mestu um að mjög fá reiðhjól eru seld með bjöllu. Í ofangreindu er lás frátalinn þar sem fólk vill oft velja hann sér.
Hér fyrir neðan má sjá skiptinguna eftir því hve mikið af þeim 7 atriðum vantaði á hjólin (lás ekki talinn með).
Algengast var að einungis eitt atriði vantaði.
Um þriðjung hjólanna vantaði um helming af þeim skyldubúnaði sem á að vera á reiðhjólum í dag.
Hjólin voru flokkuð sem venjuleg götuhjól og svo sem sérstök hjól, s.s. keppnishjól, off-road, downhill, Freestyle svo eitthvað sé nefnt. Síðarnefndi flokkurinn kemur mun lakar út hvað öryggisbúnað varðar og er líklega skýringin sú að menn vilja létta hjólin. En það er skýrt í drögunum að nýju reglugerðinni að þegar þessi hjól eru notuð í umferð skuli þessi búnaður vera á þeim. Undantekningin er þegar keppt er á þeim, þá megi létta þau.
Hér má sjá þróun síðustu ára á þeim búnaði sem skylt er að hafa á reiðhjóli.
Í ljósi aukinnar hjólanotkunar telur Brautin-bindindisfélag ökumanna enn brýnna að yfirvöld fari að taka á þessum vanda og er það skýlaus réttur viðskiptavina að þegar þeir koma og versla sér vöru þá sé hún lögleg. Það á ekki að gilda eitthvað annað þegar um reiðhjól er að ræða. Best væri að reiðhjólasalar tækju þessu alvarlega og sýndu fram á að þeirra hjól væru lögleg og hefðu allan skyldubúnað á þeim.
Lögreglan hefur lítið skipt sér af þessum málum en vitað er að bjöllulaus hjól hafi valdið slysum þegar hjólað var fram hjá gangandi vegfarendum og þeir ekki varaðir við með réttum hætti.
Einar Guðmundsson
4. ágúst 2015 16:04