Þann 17. júní var Veltibíllinn opinn fyrir gesti við Sundlaug Kópavogs í tilefni hátíðahaldanna.
Sá merkisatburður gerðist að farþegi númer 300.000 prófaði bílinn við það tækifæri. Það var Karen Inga Björgvinsdóttir sem var farþegi númer 300.000 síðan fyrsti íslenski Veltibíllinn var tekinn í notkun árið 1995.
Bíllinn sem er í notkun í dag er sá fimmti í röðinni frá 1995 þegar veltibíll var fyrst smíðaður á Íslandi. VW verksmiðjurnar og Hekla hafa lagt til bíl í verkefnið og eiga miklar þakkir skildar fyrir stuðninginn. Bíllinn hefur nýst í margvíslegri umferðarfræðslu á þessum tíma og í dag er veltibíll orðinn hluti af ökunámi.
Veltibíllinn er það tæki sem best hefur nýst til að minna fólk á að nota bílbeltin og hafa nú 300.000 farþegar fengið að upplifa veltu. Það er því miður staðreynd að meirihluti þeirra sem hafa látist í umferðinni á þessu ári voru ekki með beltin spennt og því ljóst að enn er langt í land.
„Vá – það er eins gott að nota beltin“ sagði eitt barnið eftir að hafa farið í bílinn á 17. júní.
Brautin –bindindisfélag ökumanna rekur Veltibílinn en Ökuskóli 3 á þriðjung í honum og hefur notað hann í ökukennslu.
Notkun bílsins hér á landi hefur vakið athygli margra umferðarsérfræðinga í Evrópu og þykir þessi leið lofa góðu í baráttunni fyrir aukinni bílbeltanotkun.
Einar Guðmundsson
17. júní 2015 22:12