veltib2Síðan 1995 hefur Veltibíllinn verið eitt helsta umferðaröryggistæki Brautarinnar. Um 300.000 manns hafa farið veltu í bílnum og þannig upplifað hve miklu máli það skiptir að hafa bílbeltin spennt. Á þessum tíma hafa fjórir VW Golf verið á vagninum en það er Hekla og Volkswagen sem gefa bíla til verkefnisins. Lengst af átti félagið þriðjung á móti Sjóvá og Umferðarstofu en nýlega hefur eignarhald bílsins breyst og nú á félagið tvo þriðju á móti þriðjungs eign Ökuskóla 3 ehf.

Síðustu tvö ár hefur Veltibíllinn verið í mikilli notkun í Ökuskóla 3 þar sem allir ökunemar hafa fengið að fara veltu sem hluta af ökunámi sínu. Síðasta vetur eignaðist Ökuskóli 3 sinn eigin Veltibíl og þá skapaðist aftur möguleika á að Veltibíllinn færi í heimsóknir.

Veltibíllinn fór í 20 heimsóknir á liðnu sumri og fóru 8.190 manns veltu í bílnum. Bíllinn fór þannig í heimsókn á nokkrar vorhátíðir grunnskóla, var við Spöngina á Grafarvogsdaginn, hjá KFUM og KFUK, í Grindavík á Sjómannadaginn, í Kópavogi 17. júní og svo mætti lengi telja.

Ein heimsókn stóð reyndar upp úr en það var heimsókn á bæjarhátíðina Heim í Búðardal. Hátíðin var rekin með afar takmörkuðu fjármagni og því leit út fyrir að ekki væri hægt að fá bílinn í heimsókn. Nokkrir öflugir heimamenn tóku sig til og fóru að skora á menn að leggja verkefninu lið í gegnum Facebook. Það heppnast og úr varð að Veltibíllinn heimsótti Búðardal á blíðviðrisdegi í júlí.

Þegar bíllinn er í notkun setjum við gjarnan myndir inn á Facebook síðu Veltibílsins, www.facebook.com/veltibillinn, og hvetjum við þig til þess að líka við síðuna.

Það eru félagsmenn í Brautinni sem standa á bakvið Veltibílinn, þetta mikilvæga öryggistæki sem nú er orðið skylda í ökunámi. Við erum stolt af verkefninu og skulum segjaj frá því sem víðast.

Guðmundur Karl Einarsson, gjaldkeri Brautarinnar

Guðmundur Karl Einarsson

21. desember 2014 17:08