Nú er svartasta skammdegið skollið á okkur en þó með von um bjartari framtíð, þ.e. fyrir flest okkar. Jólaljósin sýna sig í hverjum glugga, eða næstum því. Fyrir suma er þessi tími skemmtilegur og margir hlakka til, en því miður ekki allir. Fyrir suma er þetta nefnilega tími sem ýfir upp sorg og trega. Tími sem minnir fólk á skyldmenni sem dáið hafa í umferðinni á árinu eða síðustu ár. Jólin eru líka tími sem margir naga sig í handabökin af því þeir tóku sénsinn og keyrðu þó svo þeir væru ekki í standi til þess. Þeir voru kannski „óheppnir“ og ollu einhverjum líkamlegum skaða eða dauða.
Það er okkar allra að reyna að forða fólki frá slíkum harmi. Eitthvað sem við öll getum gert ef við pössum okkur í umferðinni. Pössum að vera með endurskinsmerki, að börnin okkar séu með endurskinsmerki, að keyra miðað við aðstæður, hraðann, keyra varlega og umfram allt að keyra ekki ef við höfum smakkað áfengi eða notað önnur efni sem brengla dómgreind okkar. Eftir einn ei aki neinn. Það er góð og gild regla sem allir ættu að hafa í huga hvort sem viðkomandi er að keyra stutta eða langa vegalengd. Eins þó viðkomandi hafi alltaf „sloppið“ til þessa. Það veit nefnilega enginn hvort þeirra tími er kominn eða ekki og að taka sénsinn ætti bara ekki að vera í boði.
Um leið og fyrsti sopinn er tekinn brenglast dómgreindinn. Fyrsta merki þess er ef þú trúir því að vera hæf/ur til þess að stjórna ökutæki þrátt fyrir hafa neytt áfengis. Besta reglan er að geyma bíllyklana heima ef þú ætlar að fá þér í glas. Eða að losa þig við lyklana til einhvers sem þú þekkir og ekki er að drekka ef þú ákveður síðar að taka fyrsta sopann. Það myndi hjálpa þér og einnig öðrum að upplifa gleðileg jól. Það myndi koma í veg fyrir að svartasta skammdegið verði alltaf svart fyrir suma. Það myndi auðvelda mörgum að eiga bjartari framtíð. Það myndi gera mörgum auðveldara að setja upp jólaljósin og gleðjast og eiga skemmtilegan tíma framundan. Líka þér!
Ég vona að þið öll eigið gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Arndíds Hilmarsdóttir, stjórnarmaður í Brautinni
Arndís Hilmarsdóttir
21. desember 2014 22:23