Lögreglan er ekki að leita eftir áfengisáhrifunum ef þú ágæti ökumaður ert stöðvaður. Hún leitar eftir áfengismagninu í blóði. Sé áfengis neytt með mat upplifir neytandinn minni áfengisáhrifa, en áfengismagnið í blóði er það sama hvort matar sé neytt eða ekki. Hugsanlega tekur áfengið lengri tíma að komast út í blóðið.
Sumir telja að leyfilegt sé að hafa smá ágengismagn í blóði þar sem refismörkin eru 0.5 prómill. En umferðarlögin eru skýr, ekki má aka eftir að hafa neytt áfengis. Lögreglan mun ekki heimila akstur þó prómillmagnið sé 0.3 eða 0.4. því það er einnig brot á umferðarlögunum.
Sumir ökumenn aka undir áhrifum vegna þess að þeir telja að lögreglan nái þeim ekki og sér í lagi þar sem þeim tókst það síðast. Svo eru þeir ökumenn sem telja sig yfir umferðarlögin hafin og mega brjóta þau að vild, bæði hvað hraða og ölvun varðar.
Í báðum tilfellum erum við hin sem ferðast í umferðinni í hættu ef við mætum þeim. Þeir hugsa bara um sig og sínar þarfir. Myndu þeir leyfa sér að aka í þessu ástandi eftir þeirri götu sem barnið þeirra leikur sér við? – Líklega ekki, því þá snertir það þeirra eigin hagsmuni.
Hafir þú einhvern tíma ekið undir áhrifum áfengis eða annara vímuefna, er ekki of seint að snúa blaðinu við því nýr dagur byrjar á morgun. Það er ákvörðun okkar hvernig við hegðum okkur í umferðinni. Sýnum þá ábyrgð að aka ekki undir áhrifum áfengis eða annara vímuefna og gefum okkur það í jólagjöf.
Einar Guðmundsson
formaður í Brautinni, bindindisfélagi ökumanna
Einar Guðmundsson
17. desember 2014 22:17