Brautin – bindindisfélag ökumanna fór á stúfana og skoðaði dekkjabúnað 600 bíla í lok nóvember í Reykjavík. Þessi dagur var fyrsti dagur með hálku eftir langvarandi hlýindakafla.
Dekk bílanna voru flokkuð í eftirfarandi flokka eftir ástandi þeirra:
- Mjög mikið slitin dekk, mynsturdýpt undir 3 mm
- Mikið slitin dekk, mynstur alveg við 3 mm dýpt.
- Milli slitin dekk. Dekk farin að slitna en með ágætis mynstri
- Lítið slitin dekk. Gott mynstur en smá slit
- Ný dekk, óslitin.
Segja má að 78% bílanna voru með dekk sem voru með viðunandi dekkjamynstur. 22% þeirra voru á dekkjum sem eru voru ýmist á ólöglegum dekkjum eða verða það innan tíðar. Brautin gerði samskonar könnun á svipuðum tíma í fyrra. Þá voru 19% á mikið slitnum og mjög mikið slitnum dekkjum. Þeim hefur því fjölgað um 15% milli ára sem aka á mikið slitnum dekkjum.
Hvernig dekk voru undir bílnum?
Flestir voru á vetrardekkjum án nagla eða 65% bílanna. Þá voru 26% á nöglum. Enn voru 7% ökumanna á sumardekkjum. Í 2% tilfella voru bílar á ósamstæðum dekkjum að framan og aftan, ýmist sumar- og vetrardekk eða nagla- og naglalaus dekk.
Í könnun Brautarinnar í fyrra voru 55% á naglalausum vetrardekkjum og 32% á nöglum. Þeim fækkar nokkuð sem aka á nöglum eða um 19%.
Hér fyrir neðan má sjá hvernig skiptingin er milli dekkjagerða.
Brautin ítrekar mikilvægi þess að eigendur bíla hugi vel að dekkjabúnaði þeirra. Hvert dekk er aðeins lófastór flötur og því ekki margir fersentimetrar sem við höfum til að stöðva bílinn. Þá má ekki gleyma að þeir sem aka um svæði þar sem mikil söltun er á götum, þurfa að þrífa tjöruna reglulega af dekkjum. Tjaran var hér áður fyrr notuð sem skíðaáburður. Það segir okkur að hún hentar illa á dekkin undir bílnum.
Þá minnir félagið á að ökumenn kanni reglulega loftþrýsting dekkjanna. Réttur loftþrýstingur minnkar eyðslu bílsins og dregur úr sliti á dekkjum. Auk þess er bíllinn öruggari í akstri.
Einar Guðmundsson
11. desember 2014 17:49