Brautin – bindindisfélag ökumanna gerði bílbeltakönnun meðal ökumanna einn morgunn í lok nóvember í Reykjavík. Kannaðir voru 762 bílar. Það var sláandi hve bílbeltanotkun atvinnubílstjóra var mun minni en einkabílstjóra. Þá kom í ljós að 13% einkabílstjóra og 15% atvinnubílstjóra sem voru ekki í belti voru einnig að tala í símann. Þeir örfáu sem voru að reykja undir stýri voru allir beltislausir.
81% allra ökumanna og farþega voru í bílbeltum. Beltanotkun var mest í aftursætum eða 93% meðan 79% ökumanna voru í beltum. Þar munar mestu hve atvinnubílstjórar nota lítið bílbelti.
Meðan 92% bílstjóra einkabíla notuðu belti notuðu 43% atvinnubílstjóra bílbelti í könnunninni.
Minnst var notkun bílstjóra á sendibílum og flutningabílum eða einungis 30%. Tæplega helmingur leigubílstjóra notuðu bílbelti. Örlítið meiri notkun var hjá bílstjórum ýmissa fyrirtækja eða 62%.
Það er áhyggjuefni hve atvinnubílstjórar nota lítið bílbelti. Þeir eru ekki undanþegnir beltaskyldu og þó hættan sé eilítið minni þegar stór bíll lendir í árekstri en lítill, þá er hún engu að síður mikil og því mikilvægt að þeir virði reglur um beltanotkun líka.
Notkun farþega mun betri
Bílbeltanotkun farþega var almennt mun betri. Tæplega 92% allra farþega notuðu belti. Það var þó aðeins munur á hvar í bílnum þeir sátu.
Þeir farþegar sem voru frammí í leigubílum reyndust allir nota bílbelti og 97% framsætisfarþega í einkabílum. Þó skáru farþegar í litlum atvinnubílum sig úr með einungis 33% beltanotkun. Í sendibílunum og flutningabílunum var enginn farþegi.
Munurinn var meiri í aftursæti. Þar voru einungis 50% aftursætisfarþega í leigubílum með bílbelti.
Af þessari könnun má ráða að það eru ákveðnir hópar sem greinilega þarf að beina áróðri til hvað bílbeltanotkun varðar. Það eru atvinnubílstjórar, þeir sem eru farþegar í atvinnubílum og farþegar í aftursæti leigubíla.
Einar Guðmundsson
10. desember 2014 17:27