Brautin – bindindisfélag ökumanna hefur sent Allsherjar- og menntamálnefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis), 17. mál, en félagið fékk beiðni frá nefndinni þar að lútandi.
Brautin – bindindisfélag ökumanna hefur lesið yfir efnislega ofangreint frumvarp. Umsögn félagsins er fyrst og fremst byggt á reynslu og rannsóknum annarra þjóða á breytingum sem þar hafa verið gerðar og er vísað til þeirra í rökstuðningi hér neðar.
Félagið telur að ofangreint frumvarp, ef það verður samþykkt, skapa meiri vanda en lausnir. Ljóst er að ef skoðaðar eru þær rannsóknir sem vitnað er í hér í viðauka á bls. 2 að aukið aðgengi kallar á meiri neyslu áfengis. Þá kemur fram að aukin neysla áfengis hefur í för með sér ölvunarakstur. Nú loks þegar lögreglan er að mæla færri aðila sem teknir eru fyrir ölvunarakstur er hætt við að sú þróun muni snúast við.
Fagaðilar eru sammála um að ekki sé hægt að bera áfengi saman við hefðbundnar matvörur. Það má m.a. sjá í heilsumarkmiðum WHO sem endurspeglast í stefnu íslenskra stjórnvalda um að draga úr áhrifum áfengis. Í fylgiskjali kafla 10. hér að neðan má m.a. sjá að sum ríki krefjast merkinga á áfengisumbúðir til að vara við afleiðingum á neyslu áfengis, s.s. á meðgöngu og í tengslum við akstur ökutækja.
Ljóst er að stór hluti kostnaðar vegna afleiðinga áfengis s.s. vegna sjúkdóma og slysa (sjúkrahús- kostnaður o.fl.) mun greiðast af ríkinu. Ef einkaaðilar fá allan hagnaðinn af sölunni þá þarf ríkið að brúa enn meira bil til að greiða þann mikla kostnað sem það nú þegar ber vegna afleiðinga áfengis.
Brautin – bindindisfélag ökumanna tekur því afstöðu gegn ofangreindu frumvarpi og hvetur þingmenn til að skoða vel neðangreindar rannsóknir. Þannig geta þingmenn tekið afstöðu út frá reynslu annarra þjóða og byggt hana á hagsmunum heildarinnar, bæði hvað varðar áhrif á heilsufar, kostnað þjóðfélagsins og félagslegar afleiðingar mikillar ölvunar (sjá bls. 284 í meðfylgjandi skjali frá Hildigunni Ólafsdóttur dr. Philos) en vitað er að ýmsum brotaflokkum fjölgar við aukna áfengisneyslu.
Í Viðauka I (bls. 2) hefur félagið tekið saman nokkur atriði sem það gerir athugasemdir við í greinargerð sem fylgir ofangreindu frumvarpi.
Meðfylgjandi í Viðauka II (bls.4) er stuttur úrdráttur úr samantekt Hildigunnar Ólafsdóttur dr. philos. Reykjavíkur Akademíunni sem nefnist: Afnám einkasölu áfengis – Yfirlit yfir rannsóknir á breytingum á áfengissölu.
Brautin – bindindisfélag ökumanna fékk heimild hennar til hennar samantekt með enda er þar að finna hlutlausa úttekt á ýmsum rannsóknum sem gerðar hafa verið á þessu sviði. Samantektin öll er send sem viðhengi.
Guðmundur Karl Einarsson
9. nóvember 2014 17:06