Í árlegri könnun sem Brautin – bindindisfélag ökumanna framkvæmdi nýlega kom í ljós að einungis 21% nýrra reiðhjóla í verslunum á höfuðborgarsvæðinu uppfylltu reglugerð 057/1994 um gerð og búnað reiðhjóla. Munaði þar mestu um að bjöllu vantaði á 72% reiðhjóla sem skoðuð voru. Þá vantaði keðjuhlíf á allmörg reiðhjól (27%) og glitmerki á önnur. 5% reiðhjóla sem skoðuð voru skorti frambremsu. Í þessari könnun hefur lás verið tekinn út úr búnaðinum en einungis 9% reiðhjóla eru seld með lás. Fjölmargar gerðir lása eru til og því ekki í hag neytenda að láta hann fylgja með hjólum.
Nokkuð mismunandi var eftir reiðhjólaverslunum hvernig búnaði reiðhjóla var háttað. Þannig voru 80% reiðhjóla í reiðhjólaversluninni Berlin lögleg og 69% reiðhjóa í Erninum. Aftur á móti fannst ekkert löglegt hjól í BYKO, Kríu eða TRI. Hlutfallið í öðrum verslunum var á bilinu 7 – 30%.
„Ekki benda á mig“
Í samtali við nokkra reiðhjólasala kom fram að þeir telja sig ekki bera ábyrgð á búnaði þeirra reiðhjóla sem þeir selja, það sé alfarið í höndum kaupenda. Þá könnuðust sumir einfaldlega ekki við reglugerðina og gátu þannig ekki upplýst kaupendur um þann búnað sem skal vera á reiðhjóli.
„Það er óneitanlega nokkuð sérstakt að setja ábyrgðina yfir á kaupandann. Það er hætt við að neytendur létu í sér heyra ef þeir þyrftu sjálfir að ganga úr skugga um nauðsynlegan búnað á nýjum bíl sem þeir væru að kaupa. Að mínu mati er þörf á að reiðhjólamenn séu meðvitaðri um þann öryggisbúnað sem þarf að vera til staðar á reiðhjólum en jafnframt þarf að endurskoða reglugerðina, meðal annars með tilliti til eftirlits.“
Einar Guðmundsson, formaður Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna
Úrelt reglugerð
Brautin telur augljóst að gildandi reglugerð sem fagnaði 20 ára starfsafmæli á þessu ári sé úrelt og brýn þörf sé á endurskoðun. Umfang hjólreiða á Íslandi hefur aukist verulega á tímabilinu sem og þær tegundir reiðhjóla sem eru í boði. Núgildandi reglugerð tekur ekki til mismunandi notkunar reiðhjóla og gerir t.d. ekki greinarmun á hefðbundnum götuhjólum eða sérstökum keppnishjólum sem eingöngu eru notuð á lokuðum svæðum. Þá er brýnt að í reglugerðinni sé skilgreint með hvaða hætti skuli hafa eftirlit með búnaði reiðhjóla. Félagið telur eðlilegast að sú kvöð sé sett á seljendur reiðhjóla að þau hjól sem seld eru hafi nauðsynlegan öryggisbúnað í samræmi við reglugerðina.
Guðmundur Karl Einarsson
26. júní 2014 19:54