Yfir 290 þúsund Íslendingar hafa prófað að fara í veltibíl frá því fyrsti veltibíllinn kom fyrir 19 árum. Þar af hafa í vor rúmlega 6000 einstaklingar prófað hann. En af hverju veltibíll?
- Notkun veltibílsins hefur skipt sköpum í umferðarfræðslu við að sýna fram á öryggishlutverk bílbelta. Umferðarstofa hefur sagt að þetta tæki hafi verið mikilvægt til að skapa það viðhorf ökumanna og farþega að nota bílbeltin.
- Bílvelta er meðal annars sviðsett til að sýna hættuna sem stafar af lausamunum við slíkar aðstæður.
Síðastliðin nítján ár hafa HEKLA og Brautin-bindindisfélag ökumanna átt afar farsælt samstarf. Á árinu 1995 var fyrsti íslenski veltibíilinn tekinn í notkun. Var það HEKLA sem lagði til fyrsta veltibílinn. Strax á fyrstu dögum hans kom í ljós hve öflugt áróðurstæki fyrir bílbeltum hann var.
Brautin hefur haft umsjón með veltibílnum frá byrjun og rekið hann í samstarfi við ýmsa aðila. En ætíð hefur Hekla lagt til bílinn í verkefnið.
Í tilefni 60 ára afmælis Brautarinnar skrifuðu Friðbert Friðbertsson, forstjóri HEKLU og Einar Guðmundsson, formaður Brautarinnar, undir nýjan samstarfssamning. Með nýjum samningi heldur HEKLA áfram að leggja félaginu til styrk til þess að Brautin geti haldið áfram að vinna að forvörnum og stuðla að meira öryggi í umferðinni.
Brautin er áhugamannafélag sem rekið er eingöngu af sjálfboðaliðum. „Okkar verkefni er að vinna að umferðaröryggismálum almennt og leggjum við sérstaka áherslu á bílabeltanotkun, vinna gegn ölvun, fíkniefnaakstri og hraðakstri. Brautin leggur einnig áherslu á að kenna ökuleikni til að sýna mikilvægi þess að vera nákvæmur í akstri,“ segir Einar Guðmundsson.
Erlendar þjóðir hafa leitað til Íslands og hefur fræðsla sem runnin er frá Brautinni verið notuð sem fyrirmyndarverkefni innan Evrópusambandsins og hafa margar þjóðir fylgt okkar fordæmi.
Friðbert Friðbertsson, forstjóri HEKLU, segir það mikið ánægjuefni að styðja við forvarnarstarf í umferðinni. „Umferðaröryggi er okkur öllum mikilvægt og því erum við hjá HEKLU afar ánægð með að hafa fengið tækifæri til að styrkja óeigingjarnt starf Brautarinnar síðustu tvo áratugi.“
Guðmundur Karl Einarsson
23. júní 2014 10:13