Stór þáttur í starfi Brautarinnar þegar fer að vora er að breiða út boðskapinn um notkun bílbelta. Það er fyrst og fremst gert með því að ferðast með veltibílinn og leyfa fólki að prófa. Nú er þegar búið að heimsækja 3 staði og rúmlega 1000 manns prófað hann í vor. Grunnskólar keppast um að fá veltibílinn á sínar sumarhátíðir enda vinsæll og um leið viðhorfaskapandi fyrir nemendur. Starfsmönnum veltibílsins finnst ekkert skemmtilegra að heyra krakkana segja „Vá – þetta var gaman“ og bæta svo við „Það er eins gott að nota bílbeltin“. 14 pantanir liggja fyrir í sumar og eiga örygglega eftir að verða fleiri. Þetta verkefni er mikilvægt og er það haft eftir starfsmönnum Umferðarstofu (nú Samgöngustofu) að þetta tæki hafi verið sú einstaka framkvæmd sem mest hefur haft áhrif á viðhorf fólks til að nota bílbelti. Þökk sé starfi félagsins frá 1995 þá hefur löggjafinn sett það inn í ökunám að allir skulu nota veltibíl.
Félagið verður með Ökuleikni á nokkrum stöðum. Félagið var beðið um að vera með Ökuleikni á Bíladögum á Akureyri sem mótvægi við öðrum greinum. Þetta hefur tekist það vel að búið var að setja Ökuleiknina á dagskrá í vetur áður en félagið fékk vitneskju um það. Íslandsmeistarakeppnin verður á sínum stað í haust, bæði á fólksbílum og atvinnutækjum. Félagið hefur tekið þátt í verkefnum með nokkrum fyrirtækjum til að auka öryggi og fækka tjónum með því að sérhanna akstursbrautir í Ökuleikni með tilliti til hvaða vanda fyrirtækin eru að upplifa í umferðinni og má sjá mjög jákvæða breytingu til batnaðar eftir slík námskeið.
Félagið mun áfram standa fyrir ýmsum umferðarkönnunum í sumar og haust að venju. Félagar eru hvattir til að vera í sambandi við stjórnarmenn vilji þeir taka þátt í einhverjum af þessum verkefnum.
Ýmis önnur verkefni eru á dagskránni sem ekki verða tíunduð hér en að lokum má geta að félagið er að nýju að taka upp norrænt samstarf eftir nokkurra ára hlé.
Einar Guðmundsson
23. maí 2014 17:03