Ökuleiknin er eitt af föstu verkefnum Brautarinnar og fara nokkrar keppnir fram árlega. Á síðasta ári var keppt í Ökuleikni á Bíladögum á Akureyri og tóku 17 keppendur þátt. Nú nýbreytni var gerð við framkvæmd keppninnar að niðurstöður keppenda voru birtar jafnóðum á Facebook síðu Ökuleikninnar (www.facebook.com/okuleikni) og mæltist það vel fyrir. Helga Jósepsdóttir varð hlutskörpustu í kvennariðli og Jósep Snæbjörnsson í karlariðli. Laugardaginn 17. ágúst var haldin Ökuleikni í Vogum á Vatnsleysuströnd. Þar var annars vegar keppt á VW Golf og hins vegar á kassabílum. Guðný Guðmundsdóttir, fyrrum Íslandsmeistari, sigraði í kvennariðli og Ragnar Elvar í karlariðli en þau óku öll VW Golf.
Íslandsmeistarakeppnir voru haldnar helgina 5. – 6. október 2013. Fyrri daginn fór fram keppni á trukkum og rútum. Keppendur tóku þátt sem einstaklingar en gátu einnig myndað lið og varð mikil spenna á milli liðanna. Niðurstaðan varð sú að Jón Sverrir Jónsson sigraði í rútuflokki og Atli Grímur Ásmundsson í trukkaflokki. Þess má geta að Atli Grímur endaði einnig í 3. sæti í rútukeppninni. Í rútukeppninni var það lið Greyline sem sigraði en lið Íslandspósts sigraði í trukkakeppni.
Daginn eftir, 6. október, fór svo fram Íslandsmeistarakeppni í Ökuleikni á fólksbílum. Þar óku allir keppendur á VW frá Heklu í gegnum fjórar brautir. Íslandsmeistari í kvennariðli var Guðný Guðmundsdóttir en Sighvatur Jónsson sigraði í karlariðli. Bæði hafa þau hampaði titlinum áður.
Það voru Askja, Ökukennarafélag Íslands, Hekla, Eimskip, N1, Sjóvá, Ölgerðin, Kynnisferðir og SBA Norðurleið sem studdu við Brautina við framkvæmd Ökuleikni og eru þessum aðilum færðar sérstakar þakkir.
Í sumar er þegar búið að skipuleggja Ökuleikni á Bíladögum Akureyri. Þá má gera ráð fyrir nokkrum keppnum í viðbót sem verða sérstaklega auglýstar auk Íslandsmeistarakeppninnar sem verður, venju samkvæmt, haldin í haust. Allar upplýsingar um keppnir má finna á www.brautin.is.
Guðmundur Karl Einarsson
23. maí 2014 17:07