Hún Birgitta hefur kvatt þennan heim. Fyrir okkur sem þekktu hana kemur fyrst upp minningin um jákvæða, káta og lífsglaða konu sem geislaði út frá.
Við sem störfuðum með henni í Brautinni – bindindisfélagi ökumanna viljum þakka fyrir hennar óeigingjarna starf fyrir félagið. Í mörg ár var hún drifkraftur í að undirbúa og halda Ökuleikni á Siglufirði. Sjálf var hún frábær bílstjóri og varð meðal annars Íslandsmeistari kvenna í Ökuleikni árin 1997, 1999, 2003, 2004 og 2009.
Hún var mikill bílagrúskari og er það undirrituðum minnisstætt þegar við mættum á Siglufjörð til að halda Ökuleikni eitt árið og bönkuðum upp á hjá henni. Þá heyrðist kallað úr kjallaranum: „Ég er hér niðri“ og viti menn, þá lá hún undir VW bjöllu sem hún var að rífa í spað. Þessir bílar voru sérstakt áhugamál hennar og hún lagaði ófá slíka bíla og byggði upp með góðum árangri.
Nú þegar að kveðjustund er komið viljum við í Brautinni – bindindisfélagi ökumanna votta aðstandendum samúð okkar og ítreka þakklæti okkar fyrir hennar störf í þágu félagsins. Minningin um hana mun lifa í hjörtum okkar.
f.h. stjórnar Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna
Einar Guðmundsson formaður
Einar Guðmundsson
1. febrúar 2014 08:00