Á fundi Umferðarráðs, fimmtudaginn 20. júní, voru þeir Sigurður Helgason og Guðbrandur Bogason sæmdir gullmerki ráðsins í þakklætisskyni fyrir ötult starf þeirra í þágu umferðaröryggis á Íslandi undanfarna áratugi.
Sigurður hefur unnið að umferðarmálum frá árinu 1987, hefur starfað hjá Umferðarráði og síðar Umferðarstofu frá árinu 1988, auk þess að sitja alla fundi Umferðarráðs síðastliðin 25 ár. Hann hefur jafnframt verið framkvæmdastjóri ráðsins frá árinu 2010. Sigurður hefur verið öflug rödd umferðaröryggis í þjóðlífinu og er því vel að viðurkenningunni kominn.
Guðbrandur hefur lengi verið í forystu fyrir samtök ökukennara hérlendis sem erlendis og var forseti NTU, Samtaka ökukennara á Norðurlöndum, um árabil. Hann var jafnframt formaður Ökukennarafélagsins í 28 ár en hefur síðastliðin ár sinnt framkvæmdastjórn félagsins auk þess að stýra Ökuskólanum í Mjódd. Guðbrandur hefur átt sæti í Umferðarráði í tvo áratugi og hefur haldið sjónarmiðum ökukennslu og umferðaröryggis fram af einurð, auk þess að vinna ötullega að stuðningi við mat á aksturshæfni fólks sem lent hefur í alvarlegum veikindum í samráði við starfsfólk endurhæfingarstofnana.
Brautin – bindindisfélag ökumanna óskar þeim félögum hjartanlega til hamingju og þakkar þeirra stóra og ómetanlega framlag til umferðarmála í gegnum tíðina.
Guðmundur Karl Einarsson
22. júní 2013 22:23