Í byrjun apríl 2013 gerði Brautin – bindindisfélag ökumanna könnun á stefnuljósanotkun ökumanna. Niðurstöður hennar sýna ótvírætt að stefnljósanotkun höfuðborgarbúa er ábótavant en aðeins 66% ökumanna sem félagið fylgdist með gaf stefnuljós þegar þeir beygðu. Kannaðar voru nokkrar gerðir gatnamóta og fylgst með alls 2.400 ökumönnum.
Mismunur eftir hringtorgum
Besta stefnuljósanotkunin var á hringtgorginu við Þjóðminjasafnið en þar gáfu 82% ökumanna stefnuljós. Stefnuljósanotkun þar var betri hjá ökumönnum á ytri hring sem óku framhjá útakstri eða 90% heldur en hjá ökumönnum í innri hring sem óku út úr hringtorginu en þar var stefnuljósanotkun 73%.
Einnig var fylgst með ökumönnum á hringtorginu neðst á Smiðjuvegi (við Tengi) þar sem Stekkjabakkinn tengist Smiðjuvegi. Þar gáfu 64% ökumanna stefnuljós sem er nokkuð lægra hlutfall en á Hringbrautinni. Það var einnig áberandi á Smiðjuvegi að margir ökumenn völdu vinstri akrein inn í hringtorgið, innri hring og óku út á fyrstu gatnamótum. Í slíkum tilfellum ættu ökumenn að velja ytri hring.
Konur betri en karlar
Verst var ástandið á afrein á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar þar sem aðeins 40% ökumanna gáfu stefnuljós. 65% ökumanna sem beygðu til vinstri af Snorrabraut inn á Eiríksgötu gáfu stefnuljós og 54% ökumanna sem tóku hægri beygju af Reykjavegi inn á Sundlaugaveg.
Við Snorrabraut var sérstaklega skráð niður kyn ökumanna og kom þá í ljós að 78% kvenna gáfu stefnuljós en aðeins 59% karla. Þá tóku rannsakendur eftir því að 75% ökumanna sem töluðu í símann undir stýri gáfu ekki stefnuljós af Snorrabrautinni.
Brautin hvetur ökumenn til þess að nota stefnuljósin þar sem þau eru mikilvægt öryggistæki og gefa öðrum ökumönnum tækifæri til þess að taka tillit og bregðast tímanlega við.
Hér má sjá niðurstöður könnunarinnar í heild:
Einar Guðmundsson
15. apríl 2013 19:09