Einar GuðmundssonNú þegar áramótin eru framundan munu landsmenn fagna nýju ári.  Margir njóta áramótanna með því að skála í mis sterkum veigum.  Það tilheyrir á þessum tímamótum.   En hvað gerist síðan þegar halda skal heim á leið og erfitt að fá leigubíl?  Er ekki í lagi að aka eftir eitt eða tvö glös?  Er ég bara ekki betri ökumaður?  Mér finnst það að minnsta kosti stundum.

Ekki eróeðlilegt að þeir sem aka eftir að hafa neytt áfengis finnist það sjálfum eða að þeir reyni að réttlæta hegðun sína með þessum rökum.   Sem betur fer sýna tölur að dregið hefur úr ölvunarakstri en á móti hefur fíkniefnaakstur aukist.  Fyrir 10 árum sýndu tölur að um 33% ökumanna höfðu ekið undir áhrifum áfengis og 35% farþega viðurkenndu að hafa setið í bíl með ölvuðum ökumanni.

Hvað með hálfan bjór eða eitt vínglas?

Vísindamenn hafa marg sannað að lítið magn áfengis hafi áhrif á hæfni ökumanna til að aka til hins verra.  Það er talið að strax við 0.2 prómill áfengis í blóði dragi úr hæfni ökumanns til aksturs og mætti ætla að það jafngilti hálfum bjór hjá sumum einstaklingum.

En hvaða áhrif hefur áfengið á ökumenn?

Nefnum nokkur dæmi:

  1. Ökumaður undir áhrifum áfengis á erfiðara með að einbeita sér að einum þætti lengi í einu og einbeitingin minnkar auk þess sem hæfnin til að einbeita sér að tveimur eða fleiri atriðum samtímis minnkar verulega.  Þessi eiginleiki er mjög mikilvægur hjá ökumanni.  Að að þurfa að fylgjast samtímis með bíl á ferð og gangandi vegfaranda getur orðið mjög erfitt.
  2. Viðbragð lengist verulega og við 0.4-0.5 prómill (u.þ.b. einn sterkur bjór að meðaltali) getur það aukist um 35%.  Þetta skýrir meðal annars hvers vegna ölvaðir ökumenn lenda gjarna í aftanákeyrslum.  Við 0.5-1.5 prómill er hætta á banaslysi allt að 13 sinnum meiri.
  3. Eftir einn bjór getur mistökum í akstri fjölgað allt að 25%.  Rangar ákvarðanir geta skipt sköpum þegar taka þarf ákörðun á innan við einni sekúndu, eins og oft vill verða í akstri.
  4. Samhæfng milli tauga og vöðva versnar.  Hreyfingar  stýris verða erfiðari, notkun bensíngjafar, kúplingar og bremsu verður ónákvæmari.  Þetta skýrir hvers vegna erfiðara er fyrir ökumenn undir áhrifum er að halda bílnum á réttum stað á götunni: Þegar skoðuð er tjónatíðni ölvaðra ökumanna, má rekja 49% þeirra til þess að ekið er á mannvirki, ljósastaura, umferðarmerki eða kyrrstæða bíla.
  5. Sjón og heyrn verður lakari.  Ökumaðurinn á erfiðara með að greina aðra einstaklinga, sérstaklega í myrkri.  Hann sér verr til hliðana og greinir því síður umferðina, bíla eða fólk sem ekki er beint framan við bílinn.
  6. Dómgreind minnkar og hæfnin til að meta aðstæður rétt einnig.  Þetta gerir það af verkum að við erfiðar eða hættulegar aðstæður er viðkomandi mjög hættulegur. Fólk með skerta dómgreind telur sig geta ekið eftir að hafa neytt áfengis.  Þó það hafi haft þann ásetning í huga í upphafi að aka ekki undir áhrifum, þá er hann ekki lengur í huga fólksins, þegar það finnur bíllykilinn í vasanum á leið heim.

 

Þessir örfáu punktar um áhrif áfengis á aksturshæfni ættu að duga til að sannfæra okkur um að akstur og áfengi sé lífshættuleg blanda og nú þegar hátíð fer í hönd, er mikilvægt að hafa þetta í huga.

Endum ekki jólahátíðina með ölvunarakstri.

 

Einar Guðmundsson

Formaður Brautarinnar-bindindisfélags ökumanna

Guðmundur Karl Einarsson

27. desember 2012 08:00