Greinin birtist í Brautinni, félagsriti Bindindisfélags ökumanna þann 1. júní 1962.

Það er til fólk, sem er sannfært um, að það sé snjallara við akstur, eftir að hafa fengið sér í staupinu, og enn fleiri, sem segjast aka með miklu meiri varkárni, ef það hefur neytt áfengis.

Við sálfræðideild háskólans í Manchester á Englandi hefur farið fram rannsókn vísindalega á því, hvernig áfengisneyzla verkar á ökuhæfni ökumanna og sömuleiðis, hvernig áfengið verkar á þeirra eigin dómgreind viðvíkjandi ökuhæfni sinni.

Þetta viðfangsefni er býsna athyglisvert, af því að oft heyrast þær fullyrðingar, að menn, sem neytt hafi áfengis, geri scr far um að sýna miklu meiri varkárni í akstri en ella mundi.

Hvernig var þessari rannsókn hagað?

Fyrst voru valdir bifreiðastjórar, sem áttu langan reynslutíma að baki, og þekktir að mikilli ökuhæfni og leikni. Áfengisvenjur þessara manna voru á ýmsu stigi, allt frá algjöru bindindi og til þess að drekka 17 lítra af öli á viku. Vínnautn þekkist tæplega þar meðal manna í ökustarfi. Vagnstjórunum var síðan skipt í þrjá flokka. Fyrsti hópurinn fékk ekkert áfengi, annar 6 cl. af wisky, sá þriðji 17 cl. af wisky.

Stundarfjórðungi eftir áfengisneyzluna hófst prófið, sem var í því fólgið að aka strætisvagni gegnum þröngan gang, sem var takmarkaður með lausum stólpum. Ökumennirnir fengu að ráðgast um, hvaða hliðbreidd þeir treystu sér til að aka bílunum í gegnum, án þess að koma við stólpana. Með þessu var unnt, að kanna dómgreind bilstjóranna um sína eigin ökuleikni. 1 öðrum þætti prófsins var ökumanni leyft að ákveða, hvaða hliðbreidd hann væri reiðubúinn að reyna vrð. Hæfni hans til að aka um ýmsar hliðbreiddir var síðan prófuð.

Vagninn, sem notaður var í þessu prófi var 2.44 m. að breidd.

Af þeim, sem ekki höfðu neytt áfengis reyndu 68% að komast í gegnum hlið, sem var mjórra en bílbreiddin. Af þeim, sem neytt höfðu minni skammtsins, reyndu hins vegar 75% hinna prófuðu, og af þeim sem neytt höfðu stærri skammtsins gerðu 80% tilraun til að aka gegnum alltof mjótt hlið.

Því meira wisky. þeim mun breiðara hlið

Tilraunirnar sönnuðu:

  1. Því meira vín, sem ökumennirnir drukku, þeim mun mjórra hlið töldu þeir sig koma bílnum gegnum.
  2. Því meira wisky, sem þeir neyttu, þeim mun breiðara hlið þurftu þeir, til þess að komast um án þess að fella stöplana. Sem sagt hæfnin minnkaði því meira, sem þeir drukku.
  3. Fífldirfskan jókst, færnin þverraði því meira sem þeir neyttu af víni.

Þessi úrskurður vísindalegrar rannsóknar hefur vakið mikla athygli í Bretlandi og víðar. Og sannarlega er þarna um að ræða þýðingarmikinn grundvöll þeirrar baráttu, sem nú verður að hefja hér á landi gegn aukinni áfengisnautn við akstur. En slíkt ástand ökumanns er nú að verða ein stærsta orsök árekstra og stórslysa í umferð, með öllu því tjóni, hörmum og örkumlun, sem af því leiðir. Og fátt er hryllilegra en brjálaðir menn á vélknúnu farartæki á fjölförnum brautum. Tökum höndum saman gegn slíkum hættum. Burt með áfengisnautn ökumanna.

Árelíus Níelsson

BRAUTIN, félagsrit Bindindisfélags ökumanna. 1. júní 1962.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=179546

Guðmundur Karl Einarsson

13. febrúar 2012 09:30