Íslandsmeistarar í Ökuleikni 2011 - Guðný Guðmundsdóttir og Jón Örn Angantýsson

Í dag, laugardaginn 10. september, fór fram 30. Íslandsmeistarakeppnin í Ökuleikni en keppnin fór fyrst fram í Reykjavík áriðr 1978. Um opna keppni var að ræða og spreyttu 14 keppendur sig á fjórum brautum sem settar höfðu verið upp á svæði Ökuskóla 3 við Borgartún.

Mikil spenna var á milli keppenda og skildu til að mynda aðeins 6 sekúndur á milli efstu keppenda í karlariðli. Keppt var í tveimur riðlum, karlariðli og kvennariðli.

Smelltu hér til að skoða myndir frá keppninni.

Í kvennariðli sigraði Guðný Guðmundsdóttir með 643 sekúndur. Guðný hefur margoft tekið þátt í Ökuleikni en ekki tekist að hampa Íslandsmeistaratitlinum fyrr en nú. Guðný var að vonum mjög ánægð með árangurinn en hún lenti í 2. sæti í keppninni í fyrra. Íslandsmeistarinn frá 2010, Hulda Lind Stefánsdóttir, hafnaði í 2. sæti nú með 668 sekúndur og í 3. sæti varð Dagný Hrund Árnadóttir.

 

Í karlariðli sigraði Jón Örn Angantýsson með 419 sekúndur. Jón Örn hefur einu sinni áður náð Íslands­meistaratitlinum, árið 2003, en tekið þátt oftar. Bróðir hans, Gunnar Örn, Íslandsmeistari frá því í fyrra hafnaði í 2. sæti aðeins 6 sekúndum á eftir Jóni. Gunnar Örn hlaut Íslandsmeistaratitil árið 1999 og 2010. Í 3 sæti  hafnaði svo Ragnar Magnússon með 464 sekúndur. Ragnar hefur tekið þátt áður og hlaut Íslandsmeistaratitil árið 1996.

 

Jón Örn var gríðarlega ánægður með árangur dagsins. Hann sagði að keppnin hefði ekki verið mjög erfið, aðallega spennandi.  Hann sagði þó nokkra samkeppni ríkja á milli þeirra bræðra, en þó ekkert í illu.

 

Kókflaskan fellur

Tveir aðrir fyrrverandi Íslandsmeistarar tóku þátt í keppnini í dag. Það voru þeir Árni Óli Friðriksson sem varð Íslandsmeistari árin 1979 og 1980 og Ævar Sigmar Hjartarson sem hampaði titlinum árið 2009.

 

Allir gerðu einhverjar villur. Þessi fór t.d. illa með keiluna

Einnig gafst keppendum kostur á að forma lið og voru tvö lið skráð til leiks, Gnýr og GO2. Gnýr hafði betur með meðaltal upp á 483 sekúndur en GO2 var  með 567 sekúndur í meðaltal.

 

Það er Brautin – bindindisfélag ökumanna sem stendur fyrir keppni í Ökuleikni. Keppnin var haldin í samstarfi við Ökukennarafélag Íslands sem lánaði aðstöðu til keppninnar og sá um spurningahluta, Sjóvá sem gaf verðlaun, Heklu sem lánaði VW Golf bifreiðar til að keppa á, N1 sem gaf verðlaunahöfum eldsneytisinneign og Vífilfell sem gaf þátttakendum og starfsfólki Coke Zero til að svala þorstanum.

 


Úrslit Nafn Spr Tími Villur Samtals
1. Guðný Guðmundsdóttir 2 453 18 643
2. Hulda Lind Stefánsdóttir 2 438 22 668
3. Dagný Hrund Árnadóttir 0 503 32 823
1. Jón Örn Angantýsson 0 259 16 419
2. Gunnar Örn Angantýsson 1 270 15 425
3. Ragnar Magnússon 3 309 14 464

Úrslit Ökuleikni 2011

Guðmundur Karl Einarsson

10. september 2011 17:26