„Var það nokkuð pabbi sem maðurinn í útvarpinu var að tala um þegar ölvaður bílstjóri olli slysi og báðir bílsjórarnir liggja nú á spítalanum? Mamma hvenær kemur hann heim?”
Nú þegar jólin nálgast eykst verulega hætta á ölvunarakstri í umferðinni. Tölur lögreglu segja það mjög skýrt. Nánast daglega heyrast fregnir af því að ökumenn hafi verið teknir undir áhrifum.
Það hefur aukist að fólk fari á jólahlaðborð og fá sér bjór eða annað áfengt með matnum og aka svo heim á eftir. „Þetta var nú bara kannski einn eða tveir, það hlýtur að vera í lagi, ég er örugglega undir mörkunum“ má heyra stundum.
Umferðarlögin banna allan ölvunarakstur
Sá misskilningur hefur ríkt meðal margra ökumanna að í lagi sé að aka þó lítið magn áfengis sé í blóði bara ef það er undir 0,5 prómillum. Rétt er að refsimörkin miðast við 0,5 prómill en ökumaður sem stöðvaður er með 0,3 eða 0,4 prómill er engu að síður að brjóta umferðarlögin sem segja að bannað sé að aka undir áhrifum. Lögreglan stöðvar slíkan akstur líka.
Ég get vel farið í vinnuna daginn eftir
Við hvað miðum við, þegar við teljum að við séum „edrú“? Margir miða við áfengisáhrifin og hafa kannski lítið annað til að miða við. Áfengisáhrifin eru hins vegar mjög slæm leið til að miða við. Einstaklingur sem drekkur 2 bjóra með mat, finnur etv. ekki mikið á sér, en ef lögreglan stöðvar hann er ekki ólíklegt að það mælist 0,8 prómill eða meira í blóði. Ef sami einstaklingur þambar þessa 2 bjóra á fastandi maga, finnur hann vel á sér, en ef lögreglan stöðvar hann mælist sama magn áfengis, það er bara að hafa sterkari áhrif á einstaklinginn. Sami einstaklingur getur lagt sig í 2-3 tíma og áfengisáhrifin hverfa. Hann telur sig vera tilbúinn til að aka en hann áttar sig ekki á því að lifrin sem sér um að vinna áfengið úr blóðinu aftur, vinnur alltaf á sama hraða og getur verið 6-8 klst. eftir atvikum að ná þessu áfengi úr blóðinu. Viðkomandi er því enn undir áhrifum þegar hann vaknar.
Ef drukkið er meira en þessir 2 bjórar, þá er eina leiðin að bíða nógu lengi. Gera má ráð fyrir að meðal þung manneskja sem innbyrgt hefur kippu af bjór geti verið 10-15 klst. að verða edrú. Hafi viðkomandi hætt að drekka um miðnætti, þá er ekki öruggt að fara að keyra fyrr en kl. 15 daginn eftir.
Hvað á ég þá að gera?
Þeir sem ætla að neyta áfengis, ættu að skipuleggja fyrirfram hvernig þeir ætla að komast heim, ekki fara á bílnum, því dómgreindin hefur minnkað verulega þegar veitingastaðurinn er kvaddur og hættan á að setjast undir stýri er enn meiri.
- Skilja lyklana og bílinn eftir heima.
- Gefa sér nægan tíma áður en farið er af stað aftur.
En fyrst og fremst þarf að taka þá ákvörðun og stimpla hana vel inn í minnið að aka aldrei undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna. Ef undirmeðvitundin hefur verið forrituð með þeim hætti, er meiri möguleiki á að við freistumst ekki til að aka undir áhrifum.
Njótum jólanna og komum heil heim.
Guðmundur Karl Einarsson
17. desember 2010 13:15