Afhending umferðarljósins 2010 á Umferðarþinginu. Frá vinstri má sjá Karl V. Matthíasson formann Umferðarráðs, Runólf Ólafsson framkvæmdastjóra FÍB, Ólaf Kr. Guðmundsson stjórnarmann FÍB, Steinþór Jónsson formann FÍB og Ögmund Jónasson samgönguráðherra sem afhenti viðurkenninguna. (Mynd: us.is)

Á Umferðarþingi 2010 sem fór fram á Grand Hótel þann 25. nóvember var Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) veitt sérstök viðurkenning fyrir starfs sitt í þágu umferðaröryggis. Umferðarljósið, viðurkenning Umferðarráðs, er veitt annað hvert ár einstaklingi, félagi eða stofnun sem þykir hafa skarað fram úr í umferðaröryggismálum. Brautin – bindindisfélag ökumanna óskar FÍB til hamingju með Umferðarljósið og telur félagið vel að þeirri viðurkenningu komið.

Hér má lesa meira um viðurkenninguna.

Tveir stjórnarmenn í Brautinni ásamt framkvæmdastjóra sátu Umferðarþing 2010 og var það afar fróðlegt. Sérstaklega innlegg Claes Tingvall, eins virtasta umferðaröryggissérfræðings heims, um Núllsýnina (e. Zero Vision). Hún gengur í stuttu máli út á að ekki sé undir neinum kringumstæðum ásættanlegt að neinn látist eða slasist alvarlega í umferðinni. Þannig verði allir, vegfarendur, stjórnvöld, veghaldara, bílaframleiðendur o.fl., að vinna saman að þessu markmiði. Meira má lesa um erindi Tingvall á vef Umferðarstofu.

Guðmundur Karl Einarsson

26. nóvember 2010 12:01