Öllum ökunemum er nú skylt að fara eina bílveltu í sérstökum veltibíl til að þeir upplifi á eigin skinni hversu lífsnauðsynleg bílbeltin eru.
Síðustu 15 ár hafa Umferðarstofa, Forvarnarhús Sjóvár og Brautin – bindindisfélag ökumanna haft á einum veltibíl að skipa sameiginlega en í dag vænkaðist hagur þeirra til muna þegar Hekla afhenti þeim tvo flunkunýja Wolkswagen veltibíla til afnota. Annar bíllinn verður alfarið í forsjá Forvarnarhúss sem kemur til af breytingum sem gerðar hafa verið á ökunámi.
Um leið og nýju bílarnir voru teknir í notkun var sá gamli afskrifaður með miklum hvelli þegar hann var látinn velta niður 45 gráðu hallandi rampa á lóð Heklu. Um leið var fest á mynd hvernig lausamunir í bílum fara á flug við slíkar aðstæður, en stórhætta getur skapast af óskorðuðum gemsum, fartölvum og fleiru þegar bíllinn fær á sig högg eða hvolfir.
Meginhlutverk veltibílanna er hins vegar að sýna fram á að bílbeltin geta skilið á milli feigs og ófeigs þegar óhöpp verða í umferðinni.
Almenningi gefst svo kostur á að prófa nýju veltibílana á laugardaginn 6. mars milli kl. 12 og 16 en þeir verða staðsettir á Heklu-planinu að Laugavegi 172 – 174
Guðmundur Karl Einarsson
4. mars 2010 17:37