Umferðarráð hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:
228. fundur Umferðarráðs haldinn þann 29. október 2009 hvetur alla vegfarendur til að vera eins sýnilegir í umferðinni og kostur er í skammdeginu. Umferðarráð bendir á að endurskinsmerki gagnast mjög vel í þessu skyni. Þau eru ódýr og einföld í notkun. Umferðarráð áréttar að sérhver sem er á ferð í rökkri eða myrkri og ber endurskin sést margfalt betur og fyrr en sá sem er án þess. Foreldrar og forráðamenn barna eru hvattir til að sjá til þess að þau séu sýnileg á leið sinni í skólann á morgnana og einnig þegar þau eru á ferð síðdegis eða að kvöldlagi.
Umferðarráð minnir einnig á reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla þar
sem fram kemur að reiðhjól skuli búin ljósi að framan og að aftan auk
glitmerkja, ef þau eru notuð í myrkri eða skertu skyggni.
Umferðarráð beinir þeim tilmælum til ökumanna að aka ávallt eftir
aðstæðum og huga sérstaklega að gangandi og hjólandi vegfarendum í
myrkri.
Umferðarráð hvetur jafnframt menntastofnanir barna og ungmenna,
gangandi vegfarendur, reiðhjólamenn og hestamenn til að leggjast á eitt
með Umferðarráði, Umferðarstofu og lögreglu til þess að koma þessum
málum til betra horfs svo bæta megi umferðaröryggi allra vegfarenda.
Guðmundur Karl Einarsson
3. nóvember 2009 14:25