Í ályktun Umferðarráðs frá 14. maí sl. varar ráðið við niðurskurði til umferðaröryggismála.

Vegna breyttra aðstæðna í efnahagsmálum hér á
landi má búast við að fólk ferðist meira innanlands en utan á komandi sumri.
Fyrir bragðið má búast við aukinni bílaumferð sem hefur mögulega hættu í för
með sér. Á tveimur undanförnum árum hefur átt sér stað jákvæð þróun varðandi
fækkun banaslysa í umferðinni, en aldrei hafa þau orðið færri tvö ár í röð á
síðustu 40 árum. Fjöldi látinna í umferð á hverja 100.000 íbúa á þessu tímabili
er hvergi lægri í Evrópu en á Íslandi.

Vonandi tekst að
halda áfram á sömu braut á þessu ári með aukinni vitund fólks um mikilvægi
ýmissa öryggisþátta í akstri. Engu að síður hefur alvarlega slösuðum fjölgað
síðustu árin. Helstu ástæður eru of mikill umferðarhraði, ölvunarakstur og
vanræksla á notkun bílbelta. Til þess að sporna við þeirri þróun varar
Umferðarráð við niðurskurði fjármagns til Umferðarstofu en afleiðingin af því
er m.a. skert umferðarfræðsla til barna og umferðaráróður í fjölmiðlum. Þá
hvetur Umferðarráð stjórnvöld til þess að auka umferðarlöggæslu á vegum
landsins í sumar vegna aukinnar umferðar. Einnig hvetur Umferðarráð alla þá sem
leið eiga um vegi landsins að leggja sitt að mörkum svo takast megi að fækka
alvarlegum umferðarslysum.

[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Guðmundur Karl Einarsson

26. maí 2009 13:59