Fyrir tveimur árum gerði Brautin, bindindisfélag ökumanna, könnun á búnaði nýrra reiðhjóla í verslunum á Höfuðborgarsvæðinu. Könnun þessi var endurtekin í ár og þá gerð í samstarfi við Sjóvá Forvarnahúsið. Í ljós kom að fjöldi ólöglegra reiðhjóla fækkaði og eru nú 38%.
Síðast kom í ljós að langflest þeirra voru ekki með allan þann löglega búnað sem skylt er að hafa á reiðhjóli í dag. Flest þeirra vantaði bjöllu og lás. Ef þessir tveir þættir voru undanskildir voru 47% nýrra reiðhjóla ólögleg. Könnun þessi var endurtekin í ár og þá gerð í samstarfi við Sjóvá Forvarnahúsið. Í ljós kom að fjöldi ólöglegra reiðhjóla fækkaði og eru nú 38%. Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla er skylt að hafa eftirfarandi á reiðhjóli:
Bjöllu, fram- og afturbremsur, teinaglit, þrístrent glit, rautt að aftan og hvítt að framan, glit á fótstigi, keðjuhlíf og lás. Reiðhjól sem eru að hæð með hnakk í efstu stöðu undir 635 mm flokkast sem leikföng og falla því ekki undir þessa reglugerð.
Ekki öll hjól í sama flokki
Í dag flokkast öll reiðhjól undir ofangreinda reglugerð. Ljóst er að reiðhjól eru mikið notuð í jaðaríþróttum og framleidd til notkunar við slíkar aðstæður, s.s. freestyle, downhill hjól, stökkhjól og keppnishjól svo dæmi megi nefna. Þessi hjól eru oftast með takmarkaðri búnað en önnur og ef þau eru seld með skyldubúnaði eru margir sem taka hann af fyrir keppni. Það er því orðin þörf fyrir að endurskoða hvort flokka eigi reiðhjól eftir notkun. Í könnuninni í ár var ákveðið að gera tilraun með slíka flokkun og var hjólunum skipt í 2 hópa, annars vegar venjuleg götureiðhjól eins og flestir festa kaup á, þ.m.t. hefðbundin fjallareiðhjól og hins vegar ofangreind keppnis- og jaðaríþróttahjól ásamt smábarnahjólum undir 635 mm. Kom í ljós að hin hefðbundnu reiðhjól komu mun betur út í könnuninni en sérstöku hjólin.
Hvaða búnað vantar oftast?
Oftast vantar lás með reiðhjólum. Þrátt fyrir að hann sé skyldubúnaður vantar 90% reiðhjóla lás. Kaupa þarf hann sérstaklega. Flestar verslanir benda á að hann þurfi að vera á hjólinu. Bjöllur vantaði í 54% tilfella og benda flestar verslanir á að kaupa þurfi hana til að hjólið sé löglegt. Auðvelt er að bæta úr þessum þáttum. Þriðja algengasta vandamálið var að í 27% tilfella vantaði keðjuhlíf. Oft var erfitt að fá keðjuhlíf á þau reiðhjól sem seld voru. Ljóst er að keðjuhlíf er mikilvægur búnaður á reiðhjólum til almennra nota. Á keppnishjólum eru reiðhjólamenn oftast í sérstökum fatnaði sem dregur úr líkum á að fatnaður festist í keðju.
Þróunin síðustu tvö árin
Ljóst er að reiðhjólasalar eru að standa sig betur í ár en fyrir 2 árum. Þó er enn nokkuð í land. Í ljósi þess að ákveðinn búnaður er skylda þá er athyglisvert að neytendur þurfi að bera sig sérstaklega eftir honum því hann fylgir ekki hjólinu. Að mati Neytendastofu er þetta ekki rétt. Slíkt myndi ekki ganga ef nýr bíll væri keyptur.
Um 17% fleiri reiðhjól eru nú með þrístrent glitmerki að framan en í fyrri könnun og tæp 7% fleiri hjól með frambremsur. Það er einkennilegt að leyft skuli að selja reiðhjól til almennra nota sem eru án frambremsa. Það er búnaður sem erfitt er að bæta við og verulega kostnaðarsamt.
Það sem þróast hefur á verri veg er teinaglit, keðjuhlíf og glit á fótstigi. Reyndar er breytingin ekki mikil en í ljósi þess að flestir reiðhjólasalar eru jákvæðir og vilja bæta þjónustuna, þá er þessi þróun ekki góð.
Guðmundur Karl Einarsson
31. maí 2007 09:18