Garðar Örn Hinriksson
Ég mun aldrei gleyma því, hversu svalur mér fannst þú vera, þegar þú þeyttist eftir Reykjanesbrautinni á 160.kílómetra hraða á klst, á nýja bílnum þínum, sem þú fékkst daginn áður, ásamt ökuskírteininu. Það var eins og brautin hefði verið sérsniðin fyrir þig. Það breytti engu þótt myrkrið væri skollið á og brautin rennisleip, eftir rigningu dagsins. Þú varst Sjúmakker Íslands og við fylgdumst með þér af aðdáun og áttum ekki orð yfir það, hversu fimur okkur fannst þú vera á bak við stýrið. Ég sem er vanur að nota öryggisbelti, lét ég bara hanga niður með sætinu. Mér fannst algjör óþarfi að spenna það á mig, því mér fannst ég svo öruggur með þér í bíl. Það átti við um okkur öll, sem vorum með þér í bílnum. Ljósastaurarnir þeyttumst framhjá og manni fannst eins og það væri bara einn langur ljósastaur á Reykjanesbrautinni, því þú ókst svo hratt. Ég man að stelpurnar skríktu af gleði, því þeim fannst þú svo svalur og ég fann það á mér, að þær ætluðu allar að “negla” þig í lok ferðar. Ég horfði á þig öfundsjúkur, því þú bjóst við svo mikla kvennhylli. Djöfull get ég ekki beðið eftir því að fá bílprófið, því þá skulu þær allar verða mínar.
Ég mun aldrei gleyma því þegar ég sá þig í dauðateygjunum, eftir að þú þeyttist út úr bílnum, eftir að hafa keyrt á bílinn, sem kom úr gagnstæðri átt. Eitt lítið augnablik misstir þú stjórn á bílnum og nýji bíllinn ónýtur og Reykjanesbrautin blóði drifin. Ég mun heldur aldrei gleyma stelpunni, sem sat frammí með þér. Fallega brúnhærða stelpan, sem skríkti og hló svo dátt, mun aldrei hlægja aftur. Þarna lá hún út um allt í bílnum. Hún var eins og kramin fluga, sem var búið að slíta af vængi og fætur. Ég mun aldrei gleyma stelpunum, sem sátu aftur í með mér. Þær lifðu af, en munu aldrei lifa aftur eðlilegu lífi, nema eðlilegt líf sé að liggja á sjúkrastofnun, það sem eftir er og vera grænmetishausar. Ég mun aldrei gleyma gömlu hjónunum, sem voru í bílnum, sem þú keyrðir á. Þau hefðu auðveldlega geta átt 10 – 15 góð ár í viðbót. Ég mun aldrei gleyma því, hvernig mér leið þarna aftur í. Ég gat mig hvergi hreyft og get það ekki ennþá, því ég er fastur í hjólastól og er algjörlega háður öðrum, því ég get hvorki fætt mig né klætt. Nú mun ég aldrei fá bílprófið, sem ég þráði svo heitt…. né kvennhyllina.
Ef þú heldur að þetta sé allt, þá er ég bara rétt að byrja. Hvað með móður þína og föður, sem elskuðu þig svo heitt? Hvað með systkini þín, sem dáðu þig og horfðu upp til þín? Hvað með ömmu þína og afa, sem voru svo stolt af barnabarninu sínu? Hvað með alla vini þína, sem gátu varla verið án þín? Ertu tilbúinn að steypa öllu þessu fólki í sorg, sem er jafnvel óyfirstíganleg? Hvað með ættingja allra hinna, sem þú stefndir í hættu og myrtir? Hvernig heldur þú að það sé að vera viðstaddur jarðaför síns eigins barns? Hvernig heldur þú að það sé að koma í heimsókn á sjúkrahúsið, þar sem barnið þitt liggur, með næringu í æð og í dái, og á aldrei möguleika aftur á eðlilegu lífi? Hvernig heldur þú að það sé að þurfa að fæða, klæða og skeina barninu sínu, langt fram á fullorðinsaldur?
Hefði ekki bara verið betra að keyra á löglegum hraða eða var “kúlið” alveg að drepa þig? Það gerði það reyndar á endanum.
Höf. Garðar Örn Hinriksson
Guðmundur Karl Einarsson
15. september 2006 17:46