Á 31. aðalfundi félagsins sem haldinn var í Reykjavík þann 26. maí síðastliðinn voru samþykktar nokkrar ályktanir um mál sem lúta að umferðaröryggi og eru félaginu hugleikin. Þær eru eftirfarandi:
31. aðalfundur Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna, haldinn í Reykjavík 26. maí 2005 lýsir yfir áhyggjum af litlu eftirliti með farsímanotkun. Fjölgun umferðarslysa sem rekja má til farsímanotkunar sýnir að mikilvægt er að auka eftirlit á þessu sviði. Fundurinn hvetur ökumenn til að nota handfrjálsan búnað við akstur og lögreglu til aukins eftirlits með farsímanotkun í umferð.
31. aðalfundur Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna, haldinn í Reykjavík 26. maí 2005 lýsir yfir áhyggjum vegna hugmynda um lækkun áfengiskaupaaldurs í 18 ár. Það hefur verið sýnt fram á að þar sem þetta hefur verið gert, hefur ölvun ungs fólks aukist, ölvun hefur færst niður í yngri aldurshópa og ekki síst að ölvunarakstur hópsins hefur aukist. Það er því þjóðhagslega hagkvæmt að halda mörkunum í 20 árum.
31. aðalfundur Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna, haldinn í Reykjavík 26. maí 2005 hvetur stjórnvöld til að forgangsraða verkefnum í samgönguáætlun í samræmi við umferðaröryggissjónarmið. Félagið er nú sem áður reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld um að efla forvarnastarf í umferðinni.
31. aðalfundur Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna, haldinn í Reykjavík 26. maí 2005 lýsir yfir áhyggjum af innflutningi ólöglegra reiðhjóla. Margar verslanir selja reiðhjól sem uppfylla ekki lagaskilyrði og lítið virkt eftirlit er með þessum innflutningi.
31. aðalfundur Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna, haldinn í Reykjavík 26. maí 2005 hvetur tl þess að hjálmanotkun verði lögleidd hjá öllum reiðhjólamönnum. Rannsóknir víða um heim sýna svo ekki verði um villst að hjálmanotkun fækkar slysum.
Guðmundur Karl Einarsson
4. október 2005 15:18