Brautin, bindindisfélag ökumanna gerði athugun á því hvernig háttað væri sölu á reiðhjólum í verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki voru allar verslanir athugaðar, heldur þær stærstu.
Kom í ljós að nær engin verslun var með allan þann löglega búnað sem skylt er að hafa á reiðhjóli. Algengast var að það vantaði bjöllu og lás og hefur það viðgengist að viðskiptavinir kaupi þann búnað sérstaklega. Þó voru verslanir sem voru með bjöllu á öllum sínum reiðhjólum. Að teknu tilliti til þessarar venju, var ofangreindur skyldubúnaður dreginn frá í athuguninni. Niðurstöðurnar eru sláandi og nauðsynlegt að gera bragarbót á.
Hver á að hafa eftirlit með sölu reiðhjóla?
Brautin gerði fyrirspurn til Umferðarstofu, Löggildingarstofu og lögreglu um eftirlitshlutverk og allir þessir aðilar töldu sig ekki hafa það. Því er eðlilegt að spurt sé, hver eigi að hafa það og greinilegt að sá aðili er ekki að sinna sínu hlutverki.

Niðurstöður
Það er sláandi að 47% allra nýrra reiðhjóla skuli ekki vera lögleg (bjalla og lás undanskilin). Í flestum tilfellum vantaði keðjuhlíf og glitmerki. Lítið mál ætti að vera að setja þann búnað á og mjög mikilvægt að hann sé á.
Það sem veldur mestum áhyggjum er að 11% reiðhjóla eru með ófullnægjandi hemlunarbúnað. Í reglugerð um búnað reiðhjóla er skírt tekið fram að hemlar skuli vera bæði á fram- og afturhjóli. Í þessum 11% tilfella vantaði farmhemla í öllum tilfellum. Framhemlar eru mikilvægur búnaður og er talið að 60-75% hemlunar sé á framhjóli að öllu jöfnu. Reyndar er það minna hjá minnstu krökkunum. Það er því mjög varasamt að selja reiðhjól án framhemla. Þess má geta að hugsanlega má gera verslanir ábyrgar ef vanbúnaður reiðhjóls leiðir til slyss.
Heildarniðurstöður má finna á heimasíðu Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna á www.brautin.is.
Undirritaður svarar fyrirspurnum í fjarveru framkvæmdarstjóra félagsins.

Einar Guðmundsson
einar@brautin.is
844-2023

Hér má sjá helstu niðurstöður könnunarinnar

Guðmundur Karl Einarsson

7. júní 2005 10:58