Á 31. aðalfundi Bindindisfélags ökumanna, sem haldinn var í Reykjavík þann 26. maí 2005, var samþykkt breyting á 1. grein laga félagsins. Hún felur í sér að nafn félagsins breytist í Brautin, bindindisfélag ökumanna. Talið er að þetta nafn standi betur fyrir þann málstað sem félagið berst fyrir og henti því betur í framtíðinni. Samhliða þessari nafnabreytingu var nýrri stjórn félagsins falið að ákveða og kynna fyrir félögum nýtt merki. Það verður gert á næstu dögum. En fleira merkilegt gerðist á fundinum. Einar Guðmundsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri félagsins síðan 1979, ákvað fyrr á þessu ári að láta af því starfi á aðalfundinum. Einari var á fundinum færðar bestu þakkir fyrir ötult og óeigingjarnt starf í þáfu félagsins. Í hans stað hefur verið ráðinn Guðmundur Karl Einarsson. Guðmundur var áður í stjórn félagsins og gengur því úr henni sem stjórnarmaður.
Fleiri gengu úr stjórn félagsins. Brynjar M. Valdimarsson sem setið hefur í stjórn lengur en elstu menn muna ákvað að gefa ekki kost á sér að nýju og eru honum færðar þakkir fyrir sitt framlag. Þá óskaði Halldór Árnason, formaður félagsins síðan 1998, eftir því að láta af því embætti. Halldóri eru sömuleiðis færðar bestu þakkir fyrir gott starf sem formaður.
Á fundinum var kosinn formaður til eins árs Haukur Ísfeld. Þá voru Páll H. Halldórsson og Friðþjófur Karlsson kosnir aðalmenn til tveggja ára og Pétur Þorsteinsson og Jón Freyr Þórarinsson varamenn til eins árs. Páll og Pétur voru í stjórn á liðnu tímabili, en Haukur, Friðþjófur og Jón Freyr koma nýjir inn og eru þeir boðnir velkomnir. Aðalmenn áfram til eins árs eru Aðalsteinn Gunnarsson og Arndís Hilmarsdóttir.
Samhliða breytingu á framkvæmdastjóra mun félagið fá nýtt heimili. Félagið mun í byrjun júní flytja í Brautarholt 4a þar sem fyrir eru Fræðslumiðstöð í fíknivörunum og Íslenskir ungtemplarar.
Guðmundur Karl Einarsson
27. maí 2005 01:29