Samstarfsráð um forvarnir, sem BFÖ er aðili að, hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:
Auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar hér á landi og hefur verið svo lengi. Ýmsir framleiðendur og dreifingaraðilar áfengra drykkja hafa þrátt fyrir það komist upp með að koma þeim á framfæri í auglýsingum með því meðal annars að nota líkar umbúðir og nöfn á óáfenga drykki sem þeir svo auglýsa og fara þannig í kringum áfengislögin.
Hér fyrir neðan má sjá fréttatilkynninguna í heild sinni:
Auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar hér á landi og hefur verið svo lengi. Ýmsir framleiðendur og dreifingaraðilar áfengra drykkja hafa þrátt fyrir það komist upp með að koma þeim á framfæri í auglýsingum með því meðal annars að nota líkar umbúðir og nöfn á óáfenga drykki sem þeir svo auglýsa og fara þannig í kringum áfengislögin. Í skýrslu sem kom út á vegum ríkislögreglustjóra árið 2001 er á það minnt að áfengisauglýsingabanni sé ætlað að vernda heilsu almennings fyrir skaðvænlegum afleiðingum áfengisneyslu. Tilgangurinn með banni við áfengisauglýsingum sé að vinna gegn misnotkun áfengis og draga úr skaðsemi af völdum áfengisneyslu. Áfengisauglýsingar eru taldar styrkja og viðhalda jákvæðu viðhorfi til áfengisneyslu og hafa áhrif á það hvort og hvenær ungt fólk hefur drykkju. Þar sem bann er við áfengisauglýsingum er neysla minni og minna um vandamál sem rekja má til áfengisneyslu, svo sem ölvunarakstur. Bann við áfengisauglýsingum hefur forvarnargildi sem mikilvægt er að hafa í huga.
Samstarfsráð um forvarnir stóð fyrir umræðufundi um áfengisauglýsingar 30. mars á síðasta ári. Í kjölfar þess fundar undirrituðu og kynntu fulltrúar 14 félagasamtaka, sem hafa forvarnir á stefnuskrá sinni, áskorun um að virða bann við áfengisauglýsingum. Í áskoruninni er minnt á tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að börn og unglingar fái að alast upp án hvatningar til neyslu áfengis.
Samstarfsráð um forvarnir fagnar frumvarpi alþingismannanna Ögmundar Jónassonar, Jóns Bjarnasonar, Kolbrúnar Halldórsdóttur, Steingríms J. Sigfússonar og Þuríðar Backman (þskj. 74) sem hefur að markmiði að skýra löggjöfina, þannig að framleiðendur og dreifingaraðilar geti síður farið í kringum bann við áfengisauglýsingum.
Guðmundur Karl Einarsson
7. apríl 2005 08:13