Nú styttist í Íslandsmeistarakeppnina í Ökuleikni, en á þessu ári er Ökuleiknin 26 ára og mun keppnin verða með breyttu sniði. Ekki voru haldnar sérstakar undankeppnir eins og oft undanfarin ár heldur verður öllum heimilt að taka þátt í keppninni. Þó verður sett hámark á fjölda keppenda. Fólksbílariðill og trukkariðill.
Íslandsmeistarakeppninni í Ökuleikninni verður að þessu sinni skipt í tvennt. Þann 18. september verður haldin Íslandsmeistarakeppni á fólksbílum og þann 16. október verður Íslandsmeistarakeppni á flutninga / vörubílum.
Good Year Ökuleiknin – fólksbílakeppnin.
Fólksbílakeppnin verður haldin laugardaginn 18. september á bílaplani Sjóvá-Almennra í Kringlunni í Reykjavík og hefst keppnin kl. 14. Þar gefst öllum sem hafa ökuleyfi að taka þátt án endurgjalds. Hámarksfjöldi keppenda getur þó einingis orðið 50 talsins og er nú þegar hægt að skrá sig til keppni með því að senda póst á brautin@brautin.is og fá keppendur staðfestingu á þátttöku til baka. Einnig má tilkynna þátttöku í síma 844-2023. Þá er rétt að taka fram að það er líka hægt að skrá sig á staðnum.
Íslandsmeistarakeppnin verður að því leyti frábrugðin undanförnum keppnum að keppt verður á fjórum þrautaplönum og munu allir keppendur aka þau öll. HEKLA hf. mun leggja til bíla í keppnina.
Að venju verða nokkrar krossaspurningar lagðar fyrir keppendur og allir keppendur munu fá viðurkenningu og gjöf frá Good Year á Íslandi auk þess að verðlauna sigurvegarana. Keppt verður að venju í karla- og kvennariðli. Sigurvegarar verða Íslandsmeistarar í Ökuleikni.
Scania Ökuleiknin – trukkakeppnin.
Laugardaginn 16. október verður Íslandsmeistarakeppni í Ökuleikni á flutninga / vörubílum haldin við húsnæði véladeildar HEKLU við Klettagarða í Sundahöfn í Reykjavík. Keppnin hefst kl. 13 og er eina skilyrði að viðkomandi hafi próf til aksturs þeirra tækja sem keppt verður á. Þar geta keppendur bæði keppt sem einstaklingar og / eða mynda keppnislið með 2 eða fleiri liðsmönnum og verða bæði veitt einstaklinsverðlaun og liðaverðlaun. Upplagt er fyrir fyrirtæki að senda lið í keppnina, en þátttökugjald er ekki innheimt. HEKLA hf. mun leggja til bíla í keppnina.
Sá einstaklingur og það lið sem sigrar er Íslandsmeistari í Ökuleikni trukka. Búið er að opna fyrir skráningu og hægt að skrá sig til keppni bæði í einstaklinskeppninni og liðakeppninni með því að senda póst á bfo@brautin.is og fá keppendur staðfestingu á þátttöku til baka.
Allar nánari upplýsingar veita Einar Guðmundsson í síma 844-2023 og Páll H Halldórsson í síma 891-7131.
Guðmundur Karl Einarsson
13. september 2004 21:27