Brautin-bindindisfélag ökumanna í samstarfi við grísk umferðarsamtök RSI ‘Panos Mylonas’ skipulögðu í samvinnu við skátahreyfinguna á Íslandi fræðslubúðir á heimsmóti skáta á Úlfljótvatni dagana 31.júlí – 2. ágúst.
Meira en 5000 skátar, frá 95 löndum, á aldrinum 18-26 ára, tóku þátt í Moot Global Scout mótinu á Íslandi. Um 1800 skátar komu í tjaldið til að fá fræðslu um öryggismál í umferðinni. Meginþemað var að vekja athygli ölvunarakstri og afleiðingum þess að aka undir áhrifum áfengis, notkun farsíma við akstur, notkun öryggisbelta og fleira. Þá var könnun lögð fyrir þátttakendur þar sem kannað var viðhorf þeirra til öryggis í umferðinni og ölvunaraksturs.
Við fræðsluna var notaður ökuhermir sem Brautin hefur til umráða og var sérstakt ölvunarforrit notað til að sýna hve auðveldlega áfengi breytir hæfni ökumanns til hins verra. Veltibíllinn var vinsælasta tækið að venju og fóru allir 1800 í hann. Ölvunargleraugu voru notuð til að sýna áhrif áfengis á sjónina. Þá var einnig tövluforrit notað þar sem þátttakendur gátu sett inn líkamsþyngd sína og séð hve krafturinn er mikill á mismunandi hraða. Það kom mörgum á óvart að 10 kg bakpoki væri jafngildi 400 kg við árekstur á 50 km hraða. Allt voru þetta tæki sem Brautin hefur yfir að ráða.
Grísku samtökin komu með truflunarverkefni sem sýnir svo ekki verði um villst hve auðvelt síminn truflar ökumenn við akstur.
Umferðaröryggisverkefnið náði flestum heimsóknum á mótinu og fékk fékk mikil og góð viðbrögð frá þátttakendum en margir þeirra eru í akstri á vegum sinna skátahreyfinga á hverjum degi til þess að taka víðsvegar þátt í verkefnum. Skátararnir sýndu mikinn áhuga á rannsóknarkönnuninni varðandi viðhorf ungs fólks um drykkju og akstur og meira en 400 skátar tóku þátt í henni en hún beindi sjónum á viðhorfi til neyslu áfengis og aksturs meðal ungs fólks.
Verkefnið var svo vel heppnað að alþjóðlega þjónustuteymi skátanna – IST (International Service Team) óskaði eftir auka þjálfun fyrir starfsmenn mótsins. Því var bætt við auka dagskrá fyrir þjálfun starfsmanna eitt kvöldið og komu 250 starfsmenn í hana. IST taldi að þjálfun sem þessi væri nauðsynleg fyrir unga skáta.
Forsvarsmenn Brautarinnar og RSI voru ánægðir með verkefnið og þessa aðferða að láta unga fólkið prófa með raunverulegum hætti hvers vegna þau eigi að nota bílbelti, ekki aka undir áhrifum áfengis eða nota farsíma í akstri og ekki síst að ná til svo margra ungmenna frá svo mörgum mismunandi löndum um allan heim. Þessir skátar munu taka þessa reynslu með sér til síns heimalands og vinna með hana þar. Mikil velgengni þessa sýnir nauðsyn þess að vera með slíka fræðslu á þessum stóru skátamótum. Skipuleggjendur mótsins vonast til að samskonar fræðsla geti orðið fastur liður á komandi skátamótum.
Einar Guðmundsson
4. ágúst 2017 14:25